Birt: 13. september, 2022 Birt af: logi Athugasemdir: 0

Fyrsta verkefnið sem eitthvað kvað að var í faginu upplýsingatækni í menntun og skólaþróun, var umræðuverkefni og gekk út á starfssamfélög, stafræn kjörlendi og tækifæri til að deila reynslu. Þurfti eiginlega að skrifa færsluna tvisvar þar sem ég var ekki nógu ánægður með hvað ég hafði skrifað í þeirri fyrri en ég læt þær báðar flakka hér fyrir neðan.

Aðeins af lærdómssamfélögum á netinu

Það er svolítið athyglisvert að skoða öll þessi netsamfélög hafandi verið hluti af þeim flestum í nokkuð langan tíma. Misvirkur í þeim reyndar enda hefur virknin ráðist mest af því hvar mestur áhuginn liggur. Þegar maður horfir til samfélaganna á Facebook með svolítið gagnrýnum augum þá kemur í ljós að þau skarast talsvert bæði efnið sem er sett þar inn sem og umræðan sem á sér stað þar. Það á sérstaklega við um hópana spjaldtölvur í námi og kennslu, upplýsingatækni í skólastarfi og UTÍS – Upplýsingatækni í skólastarfi sem eftir því sem manni virðist þjónar einna helst sem auglýsingasíða fyrir það sem er í boði á UTís hverju sinni. Sem er góðra gjalda vert þannig séð en í raun bætir ekki miklu efnislega við umræðuna sem fram fer á Facebook um skólamál. Það hins vegar er skiljanlegt þar sem lögð hefur verið áhersla á umræðu um UTís á twitter bæði þegar ráðstefnan hefur farið fram í netheimum sem og í raunheimum.
Hóparnir upplýsingatækni í skólastarfi og spjaldtölvur í námi og kennslu rugla svo nokkuð mikið reytum varðandi efnistök og umræður og gæti ég alveg séð fyrir mér að það gæti valdið smá ruglingi fyrir þá sem koma nýir inn í þennan heim. Kannski mætti alveg sameina þessa hópa undir upplýsingatækni hópinn enda fellur öll umræða um spjaldtölvur líka undir upplýsingatækni í skólastarfi. Það sést líka á því að ýmislegt af því sem birtist á upplýsingatækni í skólastarfi ætti kannski frekar heima inni í spjaldtölvur í námi og kennslu. Í ofanálag þá er oft á tíðum sama fólkið sem er virkt á báðum stöðum.
Varðandi efnið þarna inni þá þarf ekki að vafra um þessa hópa lengi til að átta sig á því að stór hluti þess sem þangað inn er sett er fólk að deila eigin verkum, segja frá námskeiðum og ráðstefnum eða leita ráða varðandi öpp, forrit og tæki og stundum varðandi kennslu og hugmyndir að verkefnum. Hins vegar þá eiga alveg til að blossa upp fjörugar umræður ýmislegt sem kemur upp í skólamálum og tengist upplýsingatækni. Umræða um persónuvernd hefur t.d. reglulega skotið upp kollinum og þá sérstaklega í tengslum við öpp og þjónustur sem kennarar hafa verið að notast við í sínu starfi.
Hópurinn skólaþróunarspjallið er hins vegar aðeins af öðru meiði en hinir hóparnir og myndi ég telja að stór ástæða fyrir því sé að þeim hópi sé aðeins meira ritstýrt ef þannig væri hægt að komast að orði. Stjórnendur hópsins eru duglegir að vekja athygli á ýmsu góðu sem er að gerast á vettvangi skólamála almennt sem setur svolítið tóninn fyrir það sem aðrir hópfélagar bæta við. Þarna eru efnistökin almennari heldur en í hinum hópunum og því verður manni ljóst af að skoða það sem þangað er sett að mjög margt gott er að gerast í skólum landsins. Það sem vekur alltaf mína athygli þarna inni er allt sem tengist teymiskennslu, þemanámi og samþættingu náms. Það er sérstaklega gaman að skoða heimasíður sem kennarar hafa sett upp um þess háttar nám og kennslu.
Mestu umræðurnar að mínu mati fara fram á twitter og þá aðallega undir millumerkinu #menntaspjall. Maður þarf hins vegar að vera nokkuð virkur á á twitter því það er auðvelt að missa af umræðum sem þar fara fram. Stundum eru settar upp skipulagðar umræður, morgunspjall á sunnudögum ef ég man rétt. Þar eru þá tekin fyrir á ákveðnum tíma fyrirfram ákveðin umræðuefni sem eru svo rædd á twitter. Oft skemmtilegar umræður sem koma upp. Svo eru kennarar mjög virkir að deila því sem þeir eru að gera dags daglega undir þessu myllumerki og því alveg þess virði að fylgjast með dags daglega til að fá nýjar hugmyndir til að nýta í skólastarfinu.

Aðeins af menntabúðum og starfsþróunar samfélögum.

Það er athyglisvert að lesa greinina: Menntabúðir í starfsþróun kennara: Geta þær virkað á netinu? Fyrir mig er það aðallega vegna þess að á þeim tíma sem hún spannar er líka að stóru leyti sá tími sem ég var sjálfur í mínu starfi líklega mest að vinna í þróunarstarfi á sviði upplýsingatækni í Salaskóla. Við prufuðum okkur áfram með Moodle kerfi og ýmsa möguleika sem það kerfi bauð upp á. Við fengum styrk fyrir þróunarverkefni með B.Y.O.D. þar sem nemendur notuðu einna helst símana sína í skólastarfinu og verkefni voru sérstaklega hönnuð með það í huga. Ég var einnig á sínum tíma forsprakki þess að innleiða Google lausnirnar inn í starfið í mínum skóla og svo var maður náttúrulega á kafi í spjaldtölvubyltingunni, því sem næst frá upphafi.
Í þessu umhverfi þar sem maður var að feta nokkuð ótroðnar slóðir þá sannaði það sig að maður hafði mikla þörf fyrir samstarf við jafningja sem voru á sömu línu og þess vegna reyndi maður að komast á allar ráðstefnur, kynningar og spjallhópa á facebook sem maður gat stuðst við í leit að upplýsingum og góðum ráðum. Til að byrja með þá var maður svolítið mikið að eltast við ráðstefnur eins og Bett en komst fljótt að því að oft voru þessir viðburðir meira vörusýningar og minna um að kennarar fengju tækifæri til að deila hugmyndum og reynslu sín á milli. Manni fannst oft of mikill tími fara í einhverja fyrirlesara og of lítill tími í spjall jafningja þar sem fólk sýndi hvað það var að gera, sagði frá vandamálum og sigrum og skiptist á hugmyndum um lausnir og hvað væri hægt að gera næst. Núna veit maður hins vegar að maður þarf að velja réttu ráðstefnurnar.
Út af því að maður hafði innleitt Google lausnirnar í Salaskóla á sínum tíma þá var ég fenginn til að fara á milli skóla í Kópavogi og halda námskeið fyrir kennara í upphafi spjaldtölvuverkefnisins. Reynslan af námskeiðahaldi fyrir kennara var mjög góð fyrir mig þar sem að maður kom inn á mjög ólíka vinnustaði þrátt fyrir að allt væru þetta grunnskólar og í sama sveitarfélagi. Maður var fljótur að sjá að viðmótið og andrúmsloftið sem maður kom inn í var mjög breytilegt milli skóla. Út af því þá lærði maður ef til vill mun meira af þessu heldur en kennararnir sem mættu á námskeið. Það var samt eitt sem ég passaði mig alltaf á að gera því allir skólarnir áttu það sameiginlegt að það voru eldhugar að vinna í öllum skólunum. Ég passaði mig á að þurfa ekki að mæta annað strax eftir námskeið. Það var nefnilega alltaf skemmtilegast eftir námskeiðið því að þá voru alltaf einhverjir sem sátu lengur, vildu finna út úr vandamálum sem þau höfðu rekist á, vildu kafa nánar ofan í efni námskeiðsins sem ég hafði verið með eða jafnvel bara ræða skólamál almennt.
Það var svo í þessu umbroti öllu saman þar sem að skólar í Kópavogi fóru að taka upp á því að setja upp menntabúðir fyrir alvöru. Man reyndar ekki alveg hvaða ár þetta byrjaði markvisst þar sem menntabúðir voru haldnar reglulega yfir skólaárið fyrir covid og svo eftir aðstæðum og takmörkunum eftir það.
Skólaárið fyrir covid var ég farin að vinna sem tæknistjóri spjaldtölvuverkefnisins og lagði mig fram um að reyna að mæta á allar menntabúðir þann veturinn sem ég gat mögulega komist á. Það sem mér fannst sérstaklega skemmtilegt við menntabúðirnar það ár var hvað skólarnir sem héldu búðirnar hvert skipti settu sín sérkenni á búðirnar. Maður sá svolítið hvað var að gerjast á hverjum stað fyrir sig. Ég vona bara að menntabúðaveturinn í Kópavogi verði tekin með trompi í vetur og það verði ekki neinar veirur að þvælast fyrir.