Í námskeiðinu stjórnun og forysta fengum við það verkefni að lesa og ræða inngangskaflann í bókinni Uplifting Leadership eftir Hargreaves, Boyle og Harris. Ég set hér fyrir neðan mínar fyrri pælingar úr því spjalli en breyti aðeins færslunni til að taka út nöfn samnemenda og ef til vill laga samhengi.
Uplift, eins og því er lýst í inngangskafla úr bókinni Uplifting leadership, er nokkuð örugglega hjartslátturinn í áhrifaríkri forystu. Ef maður tengir þetta við eigin reynslu af yfirmönnum þá eiga þeir sem maður lítur á sem áhrifaríka ákveðna þætti sameiginlega. Einna helst var það að þessir yfirmenn sköpuðu hjá manni löngun til að standa sig fyrir fyrirtækið eða skólann sem maður vann hjá. Maður sem starfsmaður fékk þessa tilfinningu að maður ætti þátt í því sem var að gerast.
Þessi upplifun manns af áhrifaríkum stjórnendum á samt best við þann tíma sem ég hef starfað í skóla og þess vegna var gaman að sjá höfunda greinarinnar segja að þeir sem hafi staðið sig sérstaklega vel hvað þetta varðar, af þeim sem þeir hafi skoðað, hafi verið þeir sem unnu í opinbera menntakerfinu. Það fékk mig til að velta aðeins fyrir mér hvort að það geti verið að stjórnendur skóla og þá starfsmenn líka séu mögulega farnir að verða það vanir því að hafa úr litlu að moða og þess vegna séu þeir orðnir enn betri en ella í því að ná árangri við erfiðar aðstæður.
Það er líka áhugavert sem talað er um í kaflanum um að virkja hópinn og aflið í honum, eins og minnst hefur verið á ofar í þræðinum. Samsetning hópsins á vinnustaðnum og ef skoðum þetta niður í smærri einingar þá skiptir samsetning teyma sem vinna náið saman mjög miklu máli. Eins og komið hefur fram náttúrulega hafa óbreyttir kennarar oftast lítið um mannaráðningar að segja og millistjórnendur eru líklega ekki heldur mikið með í ráðum þó þeir standi stjórnendum vissulega nær. Ég velti því fyrir mér hvernig geta stjórnendur passað upp á að nýtt fólk falli inn í starfsmannahópinn og þá einnig þau teymi sem þeim er ætlað að starfa í? Getur verið að sýnin á það hvert skuli stefna geti hjálpað við það og það að allir í stofnuninni séu með sömu skýru sýn á það hvert sé verið að stefna? Stjórnandi viti þá betur að hverju leitað er að í fari umsækjenda. Nýi starfsmaðurinn fær betri upplýsingar um það til hvers er ætlast af honum og starfsmenn og teymi líklegri til að vera líkt þenkjandi og þar af leiðandi ætti að ganga betur að fá allan hópinn til að vinna í sömu átt.
Er þá kannski þessi sameiginlega draumsýn mögulega grunnurinn að því að stofnun eins og skóli eða leikskóli breytist, þróist eða nái árangri?