Birt: 14. september, 2022 Birt af: logi Athugasemdir: 0

Í faginu upplýsingatæki í menntun og skólaþróun fengum við það verkefni að skoða ýmis hugtök, hugmyndaramma og kenningar og áttum við svo að velja úr súpunni og koma með dæmi um áhugaverða hluti, útskýra og finna áhugaverðar greinar sem tengjast efninu. Hér fyrir neðan koma mínar pælingar um odda og frumkvöðla í skólastarfi.

Þegar ég skoðaði námskeiðssíðuna um hugtök, hugmyndaramma og kenningar þá ákvað ég að gera það útfrá þeirri pælingu að ég er á námsleiðinni stjórnun menntastofnanna. Þegar ég rakst á efnið um frumkvöðla eða odda og mismunandi hópa í skólastarfi og hlutverki þeirra í innleiðingu á tækni þá vakti það áhuga minn og þá sérstaklega út frá ákveðnum pælingum um hlutverk stjórnenda í þróunarstarfi menntastofnana. Það sem einna helst vekur áhuga minn núna eru hugmyndir um það hvernig stjórnendur skóla geta búið til kjöraðstæður fyrir frumkvöðla til að spretta fram á sjónarsviðið og hafði ég það helst á bakvið eyrað hér fyrir neðan. 

Ég þekki mikið af þeim hugtökum um odda og frumkvöðla sem eru nefnd á námskeiðssíðunni en hef ekki endilega kafað mikið ofan í fræðin að baki þeim öllum. Hvað varðar odda þá er verið að vísa í Blýantskenninguna sem er skemmtileg útfærsla, svipuð hugmyndum Everett Rogers um það hvernig sé hægt að skipta starfsfólki skóla upp í hópa allt eftir því hversu líklegir þeir eru til að taka vel í breytingar eða móttækilegir fyrir nýjungum. Oddarnir eru þá þeir sem leiða veginn, eru fyrstir til að sjá möguleika til að nýta nýja tækni í skólastarfi og eru óhræddir við að prufa eitthvað sem ekki hefur verið reynt áður. 

Þegar ég las greinina hennar Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur um Frumkvöðla í ólgusjó þar sem hún fer yfir rannsókn sína á störfum frumkvöðuls í framhaldsskóla þá er svolítið athyglisvert að hún á líklega ekkert mikið síður við í dag heldur en þegar hún kom út rétt fyrir aldamótin. Ef ég leita í eigin reynslu af þróunarstarfi undanfarin ár þá er líklega enn hægt að skipta starfsfólkinu upp í sömu hópa og við finnum á blýantinum. Hins vegar myndi ég halda út frá minni reynslu að Oddum og hinum beittu í skólasamfélaginu hefur fjölgað og á hinum endanum hefur klárlega verið aðeins rifið af strokleðrinu. Kannski er bara alveg búið að rífa það af og við erum laus við fólk sem vinnur gegn þróunarstarfi. 

Í greininni hennar Þuríðar Jónu lýsir hún hvernig leiðtoginn hefur áhuga á að nýta þekkingu sína sem hún hefur aflað í tilraunastarfi sínu til að leiðbeina öðrum. Verða nokkurs konar ráðgjafi í skólanum. Á þeim tíma var það hlutverk hins vegar ekki endilega skilgreint og þaðan af síður að það hafi verið orðið sérstakt starf. Í dag hins vegar sjáum við að víða hefur þetta hlutverk verið skilgreint sem starf innan skólanna og mætti t.d. benda á að Kópavogsbær hefur í öllum sínum grunnskólum deildarstjóra upplýsingatækni sem hefur m.a. það hlutverk að vera ráðgjafar annarra kennara um nýtingu tækni í kennslu og námi. 

Inn á Rannum rakst ég svo á meistaraprófsritgerð hennar Elínborgar Önnu Siggeirsdóttur sem tengist einmitt þessum pælingum um frumkvöðla innan skólanna. Ritgerðin heitir upplýsingatæknileiðtogar og breyttir kennsluhættir (https://skemman.is/bitstream/1946/33966/1/utl_ma_ritgerd_elinborg_siggeirsd.pdf). Þar sér maður hvað þessir leiðtogar geta verið mikilvægir starfsmenn innan skólanna. Í kaflanum um hlutverk þeirra þá kemur fram að eitt af hlutverkum þeirra sé að styðja við kennara í að nýta nýja tækni í starfi sínu. Mikilvægi þessa hlutverks er svo einnig undirstrikað með orðum samkennara eins leiðtogans í rannsókn Elínborgar, „ef við erum að fara að gera eitthvað nýtt þá erum við bara með SOS á [upplýsingatæknileiðtogann] það er bara svoleiðis“ (2019, 30). Að hafa aðgang að einhverjum sem getur hjálpað kennurum þegar upp koma vandamál eða aðstoðað við að sjá möguleika á notkun upplýsingatækni í kennslu ætti því að veita kennurum sem langar að prufa nýja hluti en þora ekki af stað, aukin kjark til að taka stökkið.

Inni á Rannum rakst ég svo aftur á verkefni fyrrum samstarfsmanns, Sigurðar Hauks um innleiðingu á spjaldtölvum í Kópavogi og þegar ég var að endurnýja kynni mín af heimasíðunni hans rakst ég á meistararitgerð Maríu Jónsdóttur frá 2016 sem hafði einhvern vegin farið framhjá mér þar til nú. Ritgerðin heitir „Þetta eru þeir sem leiða og draga vagninn“. Hvernig gegna leiðtogateymi í innleiðingu spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs hlutverki sínu? Þar er sérstaklega athyglisvert að skoða umræðukaflann þar sem hún t.d. setur störf innleiðingarteymanna inn í sjö þrepa hring Hord og Roy um stöðugar umbætur sem hún útskýrir fyrr í ritgerðinni. Þar kemst hún að því að þeirri niðurstöðu að alla vega einu til tveimur skrefum hafi verið sleppt við innleiðinguna í Kópavogi sem geti jafnvel haft áhrif á að spjaldtölvur festi sig í sessi. Nú hins vegar þessum árum seinna mætti halda því fram að spjöldin hafi fest sig í sessi í Kópavogi en það má ennþá velta fyrir sér hvort að innleiðing hefði gengið enn betur og árangur enn meiri hefði þessum skrefum ekki verið sleppt. 

Þegar ég for svo að skoða blöðin á forsíðu Rannum þá var það Journal of Technology and Teacher Education sem einna helst náði forvitni minni. Þar inni rakst ég á áhugaverða grein sem heitir Critical Media Literacy in Teacher Education: Discerning Truth Amidst a Crisis of Misinformation and Disinformation. Efni sem ég tel talsvert mikilvægt í dag á tímum falsfrétta þar sem það virðist hægt að kalla allskonar vitleysu sannleika og efast er um rótgróin vísindi þar sem jafnvel menn eru farnir að telja jörðina flata. Ég þurfti aðeins að hafa fyrir því að nálgast heildartexta greinarinnar en set slóð á hana hér: http://www.learntechlib.org/p/221058/. Í greininni leggja höfundar til m.a. að nám í þessum fræðum og hvernig sé hægt að greina bull frá fræðum verði gert aðgengilegt fyrir kennaranema.