Birt: 16. september, 2022 Birt af: logi Athugasemdir: 0

Fyrir nokkrum árum þegar ég var að krafla mig í gegnum 1. ár kennaranámsins þá var því mikið haldið á lofti að „allir kennarar væru Íslenskukennarar“. Þetta á líklega alveg jafn mikið við nú og þá og er jafnvel enn mikilvægara í þeim stafræna heimi sem við búum í. Það er hins vegar ekki nóg í þessum stafræna heimi því ég vil meina að allir kennarar þurfa líka að vera margmiðlunarkennarar í mjög víðum skilningi þess orðs. Ef við skoðum aðalnámskrána þá kemur þar fram að „megintilgangur kennslu í upplýsinga- og tæknimennt er að efla upplýsinga- og miðlalæsi nemenda og hjálpa þeim að öðlast almenna, góða tæknifærni og tæknilæsi“ (2011, 225). Í nútíma samfélagi þar sem áróður um það hvernig við eigum að lifa hinu fullkomna lífi og allir sem virðast vera handhafar sannleikans eru í beinni útsendingu í símanum okkar þá held ég að það sé sífellt að verða mikilvægara að kennarar séu færir um að kenna nemendum sínum að fóta sig í þessum stafræna heimi. Tæknin á nefnilega nýtast nemendum til gagns þannig að þeir stýri henni en ekki hún þeim.
Samkvæmt viðmiðurnarstundatöflu aðalnámskrár þá eiga um 3 prósent af námstíma nemenda að fara í upplýsingatækni. Að sjálfsögðu er einnig gert ráð fyrir að tækni- og miðlalæsi ætti að vera hluti af öðrum námsgreinum eins og kemur einnig fram í aðalnámskrá þá ætti svo að vera eins og rætt er í kaflanum um kennsluhætti og námsmat í upplýsinga- og tæknimennt. Þar er talað þar um að vinna eigi „raunhæf verkefni sem samþættast sem flestum námsgreinum og námssviðum“ (2011, 228). Vissulega eru mjög margir skólar og kennarar að gera þetta mjög vel og nýta upplýsingatækni vel þó þeir beri allir ekki titilinn upplýsingatæknikennari. Ég hins vegar óttast það að enn séu sumir þarna úti sem líti svo á að málefni upplýsingatækninnar séu bara upplýsingatæknikennarans mál. Ef það er rétt hjá mér þá held ég að svona flókin mál eins og miðlalæsi með öllu sem því fylgir rúmist illa innan þessarra 3ja prósenta ásamt því að læra á word og excel og klippa video og vinna podcöst, læra fingrasetninguna og allt hitt sem fellur þar undir líka. Þess vegna held ég að allir kennarar ættu að vera margmiðlunarkennarar eins og allir kennarar ættu að vera íslenskukennarar.

Örlítið aðlöguð færsla úr umræðu um stafrænt læsi í námskeiðinu upplýsingatækni í menntun og skólaþróun.