Birt: 22. september, 2022 Birt af: logi Athugasemdir: 0

Í greininni Leiðsögn – Leið til starfsþroska leggja höfundar, María Steingrímsdóttir og Anna Þóra Baldursdóttir út frá rannsókn þeirrar fyrrnefndu. Í rannsókninni fylgdist hún með nýbrautskráðum grunnskólakennurum á fyrsta starfsári en í greininni er einkum horft á starfsleiðsögn frá sjónarhóli leiðsagnarkennara og þeim áhrifum sem það að taka að sér starfsleiðsögn hefur á þeirra starfsþroska. Til að kanna þetta voru tekin einstaklingsviðtöl við 15 vana leiðsagnarkennara og þannig skoðað hvaða áhrif það hafði á þá að taka að sér leiðsögn kennaranema. 

Höfundar lýsa hugtakinu starfsþroska sem „þeirri þekkingu sem kennarar öðlast með reynslu í daglegu starfi, með nemendum, í samstarfi við aðra kennara, með ígrundun á eigið starf og með frekara námi“ (2009, 692). Þar að auki benda þær María og Anna Þóra á að lykilþáttur í þessum starfsþroska kennara sé ígrundun á eigið starf og benda á ýmsar heimildir máli sínu til stuðnings. Benda þær t.d. á að Sigrún Aðalbjarnardóttir tali um í bók sinni, Virðing og umhyggja – Ákall 21. aldar, um að framsækinn kennari þurfi að vera rannsakandi í eigin starfi og þurfi þannig reglulega að velta fyrir sér spurningum eins hvernig og hvað hann kenni, afhverju þessi aðferð eða þetta námsefni og hvað sé hægt að gera betur (2009, 692-693). 

Þegar niðurstöðukafli greinarinnar er skoðaður þá kemur í ljós að við það að taka að sér kennaranema til leiðsagnar þá virðast leiðsagnarkennarar leggja sig meira fram í starfi. Þeir ígrundi betur það sem þeir gera og undirbúi kennsluna betur. Mögulega má tengja það við orð eins viðmælandans sem talar um að þurfa að geta svarað spurningum nemandans um það afhverju leiðsagnarkennarinn geri hlutina svona en ekki á einhvern annan hátt. (2009, 695-696).

Það er einnig athyglisvert að það er tekið fram í rannsókninni að leiðsagnarkennararnir taka allir að sér þetta hlutverk án þess fá neinn afslátt af kennsluskyldu eða öðrum starfsskyldum og tala allir um að það geti verið tímafrekt að taka þetta að sér (2009, 694). Þetta hefur hins vegar breyst eitthvað í dag þannig að í kjarasamningum kennara er nú komið inn starfsheitið leiðsagnarkennari ásamt ákvæði um kennsluafslátt þann tíma sem leiðsagnarkennari tekur að sér leiðsögn nýliða í starfi (2022, 18). Það virðist hins vegar ekki eiga við um leiðsögn kennaranema og væri fróðlegt að skoða árangur af þessu ákvæði í kjarasamningum kennara á leiðsögn nýliða í kennslu og hvort að ekki mætti með sama móti gera leiðsagnarkennurum kennaranema betur kleift að þróa og bæta leiðsögn í vettvangsnámi með því að gefa aukinn tíma til að sinna leiðsögninni á meðan á henni stendur. 

Eftir að hafa sjálfur tekið að mér leiðsögn kennaranema í nokkur skipti þá er áhugavert að skoða það sem leiðsagnarkennarar í greininni segja um hlutverk sitt. Allt sem þessir kennarar segja passa vel við mína eigin reynslu og á það sérstaklega við um ágóðan af því þegar áhugasamir kennaranemar mæta á vettvang. Þá hefur maður í raun ekki síður upplifað sig sem nemanda heldur en hinn fróða leiðbeinanda. Þetta átti sérstaklega við síðasta vetur þegar ég tók að mér að leiðbeina kennaranema sem var að taka nám samhliða 50% kennslu. Þar fann maður allan veturinn hvernig samtölin um kennsluna og hvernig við brugðumst við mismunandi aðstæðum skiluðu sér hjá okkur báðum í því að ég tel okkur báða hafa orðið betri kennarar. 

Hvað varðar greinina þá hefði ég viljað heyra meira af því hvernig leiðsagnarkennararnir, sem þar er rætt við, upplifa það þegar upp koma erfiðleikar í tengslum við vettvangsnema. Hvað áhrif hefur það á starfsþróun leiðsagnarkennara? Getur verið að það hafi neikvæð áhrif eða er möguleiki á að starfsþróun verði meiri sökum þess að leiðsagnarkennarinn leggur sig enn meira fram. 

Hvað mig varðar þá hef ég tvisvar lent í svona krefjandi aðstæðum sem leiðbeinandi. Í fyrra skiptið þá myndi ég segja að þær hefðu haft jákvæð áhrif. Ég eyddi meiri tíma í að vinna með kennaranemunum og koma þeim í gegnum vettvangsnámið með jákvæða upplifun og reynslu. Það þýddi smá auka vinnu með fullorðnum námsmönnum en skilaði sér í því að nemarnir fóru að ég tel betri kennarar frá mér en þeir komu og ég búin að endurhugsa nokkuð hvernig ég tek á móti kennaranemum sem koma til mín á vettvang. Seinna skiptið var erfiðara þar sem ég þurfti í raun að leita aðstoðar varðandi nemann sem var hjá mér. Maður áttaði sig ef til vill ekki á því fyrr en löngu seinna að mögulega hafi maður grætt á því að leiðsegja þeim nema og þurfa að leita sér aðstoðar og ráðlegginga.

Heimildir

Kjarasamningur sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna félags grunnskólakennara. (2022). https://www.ki.is/media/zgyeyx1e/kjarasamningur_sns-og-fg-2022_2023_lok.pdfMaría Steingrímsdóttir og Anna Þóra Baldursdóttir. (2009). Leiðsögn – leið til starfsþroska. Í Gunnar Þór Jóhannesson og Helga Björnsdóttir (ritstjórar), Rannsóknir í félagsvísindum X (bls. 691–699). Háskólaútgáfan.