Birt: 22. september, 2022 Birt af: logi Athugasemdir: 0

Þegar ég las yfir umræðuna í hópnum okkar í áfanganum stjórnun og forysta þá fannst mér athyglisvert að sjá að allir sem lýstu jákvæðri reynslu úr starfi voru að því er mér sýndist að segja frá svipuðum hlutum. Þá bæði í fari stjórnenda og í andrúmsloftinu á hverjum vinnustað fyrir sig sem er svo eitthvað sem ég út frá minni reynslu tengi mjög sterkt við líka. Ef ég dreg þetta saman þá finnst mér þetta einkennast af stjórnendum með brennandi áhuga á því sem er verið að gera, hvetjandi andrúmslofti, vilja til að prufa nýja hluti og það sem mér finnst vera mikilvægast í þessu öllu saman, samtali um stefnur og strauma innan stofnunarinnar. Það er held ég svolítið lykillinn að þessu öllu.

Þegar starfsfólk fær tækifæri til að eiga virkt samtal í stofnuninni þá held ég að það sé líklegra að til verði þessi sameiginlega sýn á það hvert skuli stefna. Þá held ég einnig að líklegra sé að góðar hugmyndir komi upp á yfirborðið og besta leiðin að þessu sameiginlega marki finnist. Ég myndi reyndar nánast ganga svo langt að segja að án samtals innan stofnunar þá gangi illa að ná fram þessum 6 þáttum sem talað er um í kaflanum. Sameiginleg sýn myndast ekki, hópurinn finnur ekki bestu leiðirnar, samvinna á sér ekki stað og það verður ekki til þessi kraftur sem dregur hópinn áfram. Svo ef ekkert af þessu gerist þá held ég að ólíklega sé hægt sé að mæla einhvern viðvarandi árangur. 

Til að búa til þessar kjöraðstæður, þar sem við náum viðvarandi árangri eins og talað er um í kaflanum, þá held ég að þið hér á undan í þræðinum hafið hitt naglan á höfuðið þegar þið nefnið lærdómssamfélag. Þar sem maður hefur verið þátttakandi í svona virku lærdómssamfélagi, þar hefur maður náð mestum árangri í starfi. Maður hefur ekki bara lært mest af því heldur hefur manni mun frekar tekist að draga aðra með sér og þannig hefur skólinn og ekki síst nemendur grætt mest.