Birt: 14. október, 2022 Birt af: logi Athugasemdir: 0

Á námskeiðinu upplýsingatækni í menntun og skólaþróun þá fengum við það verkefni að setja fram hugmyndir um nýtingu á upplýsingatækni í námi og kennslu. Við unnum þetta verkefni í hópum þar sem hver aðili í hópnum setti fram sína hugmynd. Hér fyrir neðan set ég verkefnið sem ég lagði til og er reyndar verkefni sem ég hef nokkuð oft keyrt með nemendum í 10. bekk. Verkefnalýsingin hefur einnig verið sett upp sem heimasíða og er hægt að nálgast hana hér.

Valdatafl

Þetta verkefni sem heitir valdatafl fjallar um virkt nemendalýðræði. Settar eru upp kosningar til þings þar sem fyrirmyndin er kosningar til Alþingis. Hér er gengið út frá smækkaðri mynd þar sem 9 þingmenn mynda endanlegt þing sem hefur það hlutverk að koma fram fyrir hönd nemenda unglingadeildar og vinna að málefnum sem varða skólann og nemendur. Nemendur stofna stjórnmálaflokka og taka þátt í kosningabaráttu og kosningum þar sem yfirskriftin er að bæta hag og aðbúnað fyrir nemendur skólans. Í kosningunum taka svo þátt nemendur í 7. – 10. bekk.
Verkefnið er lagt fyrir í 10. bekk í þjóðfélagsfræði en inn í það tengjast svo fög og hlutir eins og upplýsingatækni, íslenska, stafræn borgaravitund, framkoma, hönnun og mögulega ýmislegt fleira. Verkefnið er fjölþætt hópverkefni sem gengur út á að nemendur nýti og þjálfi hæfni í verkefni sem tengist raunverulegum aðstæðum.
Þegar verkefnið er mátað við SAMR módelið (SVAN á íslensku) þá langar mig að staðsetja það á síðasta stiginu, redefinition eða nýbreytni. Er það aðallega vegna þess að nemendur nýta margs konar tól upplýsingatækninnar til að leysa margs konar verkefni sem hægt er að tengja við raunveruleikann. Nemendur þurfa að nýta samfélagsmiðla, myndbönd, heimasíður og hljóðupptökur til að að koma boðskap sínum til samnemenda sinna og ná til sem flestra þeirra. Þar í ofanálag fá nemendur tækifæri til að nýta tæknina til að hanna efnið og boðskap sinn eftir sínu höfði ásamt því að nýta hana til að halda utan um skipulag verkefnavinnunnar. Ef tæknin er tekin út úr verkefninu missir það fjölmarga eiginleika sem veldur því að tengingin við raunverulegar kosningingar og kosningabaráttu glatast. Þó svo að ýmislegt sé hægt að gera með öðrum verkfærum þá er ekki hægt að búa til samfélagsmiðlaímynd, myndbönd, útvarpsviðtöl og heimasíður sem nútíma kosningabarátta þarfnast, án þess að nýta þá tækni sem nemendum er ætlað að nota í verkefninu.

Verkefnalýsing

Í verkefninu þurfa nemendur að búa til stjórnmálaflokka, setja upp stefnuskrár þeirra og halda úti kosningabaráttu þar til kosningar hafa farið fram. Í kosningabaráttunni þurfa stjórnmálaflokkar nemenda að kynna stefnumál sín með ýmsum hætti fyrir öðrum nemendum unglingadeildar. Þar þurfa nemendur að koma fram, búa til rafrænt sem og áþreifanlegt kynningarefni. Einnig þurfa nemendur að gæta þess að fara eftir siðareglum um heiðarlega kosningabaráttu og passa upp á að öll framkoma og framsetning efnis sé til sóma.
Hluti af verkefninu er svo að halda utan um skipulag alls þess sem hópurinn gerir. Það þarf að halda utan um hver gerir hvað og hvenær. Er það svo lagt fram við lok verkefnisins ásamt öðrum afurðum.

Verkþættir sem nemendur þurfa að standa skil á:

  1. Útbúa stefnuskrá
  2. Kynningarefni
    1. Bæklingur eða heimasíða með kynningu á stefnuskrá og framboðslista
    2. Auglýsing fyrir annað hvort útvarp eða sjónvarp
    3. Veggspjald sem vekur athygli nemenda á flokknum
    4. Samfélagsmiðlar – ásýnd flokks á samfélagsmiðil af eigin vali
    5. Framboðsræða flutt við lokaskil
  3. Skipulag framboðs og kosningabaráttu
    1. Hlutverk hópfélaga
    2. Hvað var gert, hver gerði hvað og hvenær.

Öpp, tækni og búnaður

Þar sem hér er verkefni sem krefst þess að nemendur vinni sjálfstætt að fjölþættu verkefni þá er ekki endilega niðurneglt hvaða öpp eða forrit nemendur nota en verkefnaskil kalla frekar á ákveðnar tegundir þeirra. Hér fyrir neðan eru hins vegar tillögur að öppum og forritum sem gætu nýst nemendum við vinnuna. Listinn er alls ekki tæmandi og afmarkast ekki við hvern verkþátt þar sem hægt er að flytja verk milli appa eða forrita. T.d. gæti hópur ákveðið að hanna merki flokks í einu appi og nýta þá hönnun í mismunandi öppum allt eftir framsetningu. Það gæti nýst á heimasíðu, bækling, myndbandi eða hvar sem hópurinn vill.

Bæklingur: Book Creator, Pages, Docs, Word, Canva og fleiri.
Auglýsing: Fyrir hljóð mætti nota Audacity, Garage Band eða hvaða hljóðupptökuforrit sem til er. Fyrir myndband mætti t.d. Nota iMovie. Að auki geta nemendur nýtt hljóðver skólans sem og kvikmyndatökubúnað.
Veggspjald: Hér kemur svolítið í ljós sköpunargáfa nemenda. Sumir vilja hanna í tölvu eða spjaldi á meðan aðrir vilja vinna í höndum. T.d. hægt að nota Canva eða ýmis teikniöpp eins og t.d. Paper
Samfélagsmiðlar: Facebook, Instagram, Tiktok, Twitter, Snapchat eða hvað sem nemendum dettur í huga að nota. Hafa þarf í huga að myndbönd og færslur eyðist ekki út og þess vegna þarf alltaf að taka skjáskot og vista myndbönd sem sett væru inn á t.d. Snapchat.
Ræða: Pages, Docs, Word eða hvaða ritvinnsluforrit sem er.
Skipulag: Trello, Google Keep, Docs, Sheets eða hvaða forrit sem er sem hægt er að nota til að halda utan um skipulag. Aðalatriðið er að allir hópfélagar geti nálgast það og þannig vitað hvað hver og einn á að gera.

Markmið

Markmið með verkefninu er að nemendur geti unnið með raunverulegar aðstæður og nýtt til þess fjölbreytt verkfæri og fjölbreytta hæfni. Nemendur fái tækifæri til að vega og meta eigin kosti og draga fram sína helstu styrkleika í samvinnu við hópfélaga þar sem lögð er áhersla á að kostir hvers og eins nái í gegn. Einnig fá nemendur hér tækifæri til að taka ábyrgð á eigin nærumhverfi og hafa áhrif á það til bóta fyrir sig og samnemendur sína.

Hæfniviðmið

Í verkefninu er einna helst unnið út frá nokkrum lykilhæfniviðmið aðalnámskrár en inn í það eru svo einnig tekin hæfniviðmið annars staðar frá. Hér fyrir neðan má finna þau hæfniviðmið sem einna helst er unnið með.

Lykilhæfni:

Tjáning og miðlun

  • Nýtt fjölbreyttar aðferðir við að miðla þekkingu sinni og leikni, skoðunum, hugsunum og tilfinningum á skipulegan og skýran hátt sem við á hverju sinni.
  • Rætt á viðeigandi og skýran hátt um málefni þannig að áhugi viðmælenda sé vakinn.

Skapandi og gagnrýnin hugsun

  • Spurt rannsakandi spurninga skipulagt eigin áætlun og endurskoðað ferli við efnistök og úrvinnslu verkefna.

Sjálfstæði og samvinna

  • Nýtt hæfni sína til að vera virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu samfélagi.

Nýting miðla og upplýsinga

  • Nýtt fjölbreytta miðla og hjálpartæki á ábyrgan hátt við að leita upplýsinga og til stuðnings í námi sínu.

Upplýsingatækni:

Tækni og búnaður

  • Nýtt hugbúnað/forrit við myndvinnslu, hljóðvinnslu og gerð myndbanda.
  • Nýtt hugbúnað/forrit við vefsmíðar.

Vinnulag og vinnubrögð

  • Unnið á skapandi og gagnrýninn hátt, sjálfstætt og með öðrum.

Siðferði og öryggismál

  • Nýtt rafrænar leiðir og samskiptamiðla af ábyrgð, unnið í samræmi við reglur um ábyrga netnotkun og er meðvitaður um eigin siðferðislega ábyrgð.

Samfélagsgreinar:

Reynsluheimur

  • Greint hvernig stjórnmál og samfélagsgerð tengjast lífi einstaklinga.

Félagsheimur

  • Tekið sjálfstæðan þátt í lýðræðislegu samstarfi og samræðu.
  • Sinnt velferð og hag samferðafólks síns.

Íslenska:

Talað mál, hlustun og áhorf

  • Flutt mál sitt skýrt og áheyrilega og hefur tileinkað sér viðeigandi talhraða og fas.

Ritun

  • Tjáð hugmyndir sínar og skoðanir og fært rök fyrir þeim í rituðu máli, samið texta frá eigin brjósti og er óhræddur við að beita ríkulegu tungutaki í skapandi ritun.

Framgangur verkefnisins og tíminn sem fer í það veltur svolítið á því hversu mikin tíma í hvert skipti nemendur fá til að vinna verkefnið. Kjöraðstæður væri að nemendur fengju lengri tíma í hvert skipti sem hópar hittast til að vinna að því heldur en þær 40 mínútur sem venjuleg kennslustund er oft miðuð við. Ef hægt er að miða við að hóparnir fái 80 mínútur, allavega 2 skipti í viku til að vinna verkefnið þá væri hægt að klára það á um 4-5 vikum, allt eftir því hversu mikill kraftur er í hópnum. Hér fyrir neðan má sjá áætlun þar sem farið er yfir framgang verkefnisins.

Kveikja og verkefnavinna


Góð kveikja að verkefninu er að fara í heimsókn á skólaþing. Þar fá nemendur að fara í gegnum hlutverkaleik sem þingmenn á alþingi og fá þannig smjörþefinn af því hvernig lýðræðið virkar. Þetta tekur heilan morgun og það, ásamt því að hámark er á fjölda þýðir að gott getur verið að skipuleggja þetta vel sé hópurinn stór. Við innlögn verkefnisins er svo nauðsynlegt að fara vel yfir alla þætti verkefnisins. Til hvers er ætlast, hverju þarf að skila, hæfni sem þarf að uppfylla og reglur sem gilda. Gott er að leggja svo áherslu á lokaskil sem fara þannig fram að flokkarnir tilnefna ræðumann sem flytur ræðu fyrir nemendur unglingadeildar og færir rök fyrir því afhverju nemendur ættu að kjósa flokkinn. Í sömu kennslustund og verkefnið er lagt fyrir þurfa nemendur svo að mynda stjórnmálaflokkana allt eftir þeim reglum sem kennari setur um hópastærð.

Verkefnavinnan

Í viku 1 – 5 vinna flokkarnir að kosningabaráttunni og vinna að þeim gögnum sem þarf að skila. Hafa ber í huga að þessi tími getur verið breytilegur allt eftir því hversu mikinn tíma nemendur fá til að sinna verkefninu í hverri viku. Á meðan verkefnavinnan stendur yfir skipuleggur kennari svo reglulega stutta fundi með hverjum flokki fyrir sig til að fara yfir vinnuna í hópunum. Hvernig gengur með skipulag, hvort nemendur þurfi hjálp varðandi öpp eða forrit og hvernig samvinna gengur.

Lokaskil

Lokaskil fara þannig fram að ræður flokkanna eru fluttar fyrir nemendur unglingadeildar sem eftir kjósa eftir flutninginn. Það getur bæði farið fram með gamla laginu, blaði og blýanti eða rafrænt. Í fyrstu kennslustund eftir það eru svo endanleg skil þar sem allir hópar skila þeim gögnum sem þarf að skila.