Birt: 19. október, 2022 Birt af: logi Athugasemdir: 0

Greinin Gaining fluency: Five practices that mediate effective co-teaching between pre-service and mentor teachers eftir þau Maris Thompson og Alfred Schademan fjallar um nokkuð áhugaverða rannsókn þar sem skoðuð var ný nálgun við vettvangsnám kennaranema. Vettvangsnámið sem er hluti af kennaramenntun í háskóla í norður Kaliforníu og stendur yfir í eitt ár, fer þannig fram að vettvangsnemi og móttökukennari vinna í teymi sem jafningjar. Þannig vinna báðir aðilar saman að skipulagningu kennslu, taka sameiginlega ákvarðanir um kennsluaðferðir, sinna námsmati og öðru sem kennari þarf að gera. 

Í rannsókninni sem var eigindleg var horft til gagna sem náðu yfir fjögur ár þar sem bæði voru tekin 6 hálf opin viðtöl við teymi sitt í hvoru lagi ásamt tveimur hópviðtölum. Auk þess héldu kennaranemarnir dagbækur, fjórir móttökukennarar skiluðu hugleiðingum um ferlið og ein kennslustund var tekin upp.Við greiningu gagnanna komu í ljós fimm megin atriði sem einkenndi samstarf teymanna. 

Það fyrsta var að teymin þurftu að vinna markvisst með hluti sem gerði meðlimi þeirra ólíka. Þar þurfti t.d. að skoða samstarfið út frá ólíkum bakgrunni beggja aðila í teyminu. Annað einkenni var að kennaranemi og móttökukennari þurftu að deila valdi inn í kennslustofunni. Var það mikilvægt þar sem báðir aðilar áttu að vinna sem jafningjar og koma fram sem slíkir gagnvart nemendum. Þriðja einkennið á þessari nálgun var að báðir aðilar í hverju teymi lærðu af hver öðrum og styrkleikar beggja nýttust vel. Fjórða einkennið á þessari nálgun var möguleikinn á því fyrir móttökukennarann að leiðbeina vettvangsnema sínum á meðan kennsla átti sér stað. Fimmta einkennið var svo að þessi aðferð gaf kennaranemum tækifæri til að kafa djúpt í það sem Thompson og Schademan 2019) kalla „real world teaching“. Með þeim hætti fái nemarnir betri mynd af því hvernig það sé í raun að vera kennari.

Þegar ég hugsa til baka til þess tíma þegar ég var sjálfur í vettvangsnámi og velti því fyrir mér út frá því sem kemur fram í greininni þá verð ég að segja að hefði mér staðið til boða að taka það með þessum hætti þá hefði ég örugglega kosið það. Að fá tækifæri til að vinna í teymi með reynslumiklum kennara í heilt ár hefði verið svolítið annað en nokkrar vikur á vettvangi dreift yfir 3 ár. Á þeim tíma fannst mér svolítil áhersla lögð á að við kæmumst á þann stað að við gætum fótað okkur ein í kennarastarfinu þegar þar að kæmi. Ég velti fyrir mér hvort að þessi aðferð sé ekki eitthvað sem við gætum horft til varðandi vettvangsnám í dag þegar sífellt er talað meira um að kennarar eigi að vinna í teymum. Vettvangsnám í kennaranáminu hefur hins vegar þróast nokkuð hér heima frá því ég var í Kennaraháskólanum þar sem farið er að bjóða upp á launað starfsnám á lokaári og held ég að það geti vel nálgast alla vega að einhverju leyti þær aðferðir sem lýst er í greininni. 

Í greininni er því lýst hvaða áhrif það hafði á samstarf kennaranema og móttökukennara að sá fyrrnefndi fékk sína eigin vinnuaðstöðu inni í skólastofunni auk áhrifana sem það hafði á viðmót nemenda gagnvart nemanum. Í fyrra vetur upplifði ég svipaða hluti þegar mygla kom upp í aðstöðu sem kennaranemi sem ég var að leiðbeina hafði afnot af. Við settum upp aðstöðu fyrir hann inni í kennslustofunni minni sem við einmitt nýttum báðir í kennslu. Ég sá svipaða hluti gerast og eru nefndir í greininni. Samstarfið okkar á milli varð virkara og samræður um starfið urðu tíðari og dýpri. Líklega má tengja það við þessa breytingu þar sem laus tími þar sem við vorum áður hvor í sínu horni nýttist nú bæði til samvinnu og ígrundunar sem gagnaðist okkur báðum. 

Thompson, M., og Schademan, A. (2019). Gaining fluency: Five practices that mediate effective co-teaching between pre-service and mentor teachers. Teaching and Teacher Education, 86, 102903. https://doi.org/10.1016/j.tate.2019.102903