Birt: 4. nóvember, 2022 Birt af: logi Athugasemdir: 0

Í greininni Next generation mentoring: Supporting teachers beyond induction eftir þau Sherri Bressman, Jeffrey S. Winter og Sara Efrat Efron fara höfundar hennar yfir rannsókn sem tekur til þarfa reyndra kennara þegar kemur að leiðsögn í starfi. Í greininni sem byggir á eigindlegri rannsókn, skoða þau sýn 20 reyndra kennara á faglega þróun sína og hugarfar þeirra til þess að njóta leiðsagnar. Höfundar taka fram (2017. bls. 162) að það hafi lengi verið viðurkennt að starfræn leiðsögn sé öflug leið til að hjálpa nýjum kennurum að fóta sig í starfi en eftir að innleiðingarárum er lokið sé leiðsögn sjaldan í boði fyrir reynda kennara. Þau benda á vísbendingar þess eðlis að hætta sé á að reyndir kennarar yfirgefi starfið og greinilegt að höfundar vilja að einhverju leyti tengja skort á leiðsögn við það enda geti starfræn leiðsögn verið mjög áhrifarík leið til faglegrar þróunar. Benda þau meðal annars á rannsókn sem unnin var við Harvard háskóla þar sem brottfall reyndra kennara úr stéttinni var tengt við fá tækifæri til faglegrar þróunar og litla möguleika á frama. 

Í rannsókninni var skoðað hvernig leiðsögn hefði verið háttað þegar kennararnir sem tóku þátt voru að hefja starfsferil sinn ásamt því að skoða hvort þeir hefðu áhuga á að þiggja leiðsögn á núverandi kafla starfsferilsins. Þar að auki var skoðað hvernig þeir vildu haga þeirri leiðsögn ef þeir vildu þiggja hana. 

Af niðurstöðum greinarinnar má ráða að ekki eru allir reyndir kennarar viljugir til að þiggja leiðsögn auk þess að það skiptir miklu máli fyrir þá sem hana vilja, hvernig hún fer fram og á hvaða forsendum hún er. Það er greinilegt að þegar kemur að leiðsögn þá skipta hlutir eins og traust og gagnkvæm virðing milli aðila miklu máli. Eins virðast kennarar ekki hafa mikinn áhuga á að þiggja leiðsögn frá aðilum sem eiga að leggja mat á hæfni þeirra í starfi. Kennararnir vilja einna helst njóta leiðsagnar út frá eigin hugmyndum um hvar þeir vilja bæta við sig færni í starfi og þá frá aðila sem þeir sjálfir bera faglega virðingu fyrir. Þá gildir einu hvort að viðkomandi kennararnir séu á miðjum starfsferli eða farið sé að síga á seinni hluta hans. Það er í raun að stóru leyti þessi faglega þróun sem heldur þeim ferskum í starfi. 

Þegar ég horfi til greinarinnar út frá eigin reynslu þá get ég vel samsamað mig við það sem þar kemur fram. Þá á ég einna helst við þá kennara sem rætt er við í henni sem nutu hvorki formlegrar leiðsagnar sem ungir kennarar né þegar lengra leið á starfsferilinn. Ég hef hins vegar haft aðgang að nægri óformlegri leiðsögn þar sem ég hef unnið í kringum mikið af hæfileikaríkum kennurum í gegnum tíðina. Það sem hefur einkennt þá leiðsögn hefur verið að ég hefur sjálfur sóst eftir henni og þá verið að leita eftir að bæta mig í ákveðnum hlutum sem ég sjálfur vildi leggja áherslu á. Oftast tengdist þetta einhvers konar faglegri þróun, námskeiðum eða ráðstefnum þar sem gafst tækifæri fyrir kollega til að skiptast á hugmyndum og góðum ráðum. Það sem hefur hins vegar vantað að mestu er að fá einhvern inn í kennslustund hjá mér til að gefa manni góð ráð. 

Í greininni er það endurtekið þema að kennararnir sem myndu vilja þiggja leiðsögn tala um að það yrði að vera frá einhverjum sem þeir treysta og virða. Þar er ég þeim algerlega sammála hafandi verið einn af þeim kennurum sem fengu matsmann inn til sín þegar ytra mat á mínum skóla fór fram fyrir nokkrum árum. Þar kom inn í eina kennslustund ókunnugur aðili sem átti að taka mig út og leggja dóm á kennsluna hjá mér. Hvernig þetta fór fram var ekki til þess fallið að byggja upp traust mitt til þessa aðila og því verð ég að segja að ráðleggingar viðkomandi foru svolítið fyrir ofan garð og neðan. 

Bressman, S., Winter, J. S., & Efron, S. E. (2018). Next generation mentoring: Supporting teachers beyond induction. Teaching and Teacher Education, 73, 162–170. https://doi.org/10.1016/j.tate.2018.04.003