Birt: 15. desember, 2022 Birt af: logi Athugasemdir: 0
Þarfapíramídi Maslows

Í þetta skiptið var ég að lesa kafla 2 í bókinni Introduction to the principalship – Theory to practice eftir Leslie S. Kaplan og William A. Owings.

Það sem mér þótti áhugaverðast í kaflanum var hvernig stjórnendur skóla þurfa að vera með puttan á púlsinum varðandi það hvað fær hvern og einn starfsmann til að tikka í starfi. Það er að segja hvað starfsmaðurinn vill fá út úr starfinu eða kannski frekar hvað starfsmaðurinn þarf að fá út úr starfinu og hvernig best er hægt að nýta það báðum aðilum til heilla. Það er að segja að skólinn fái sem mest út úr starfsmanninum og starfsmaðurinn fái sem mest út úr starfinu. Það var svo sérstaklega athyglisvert að skoða þetta allt út frá þarfapíramída Maslows þar sem höfundar benda á að kennarar, nemendur og allir sem að skólanum koma hafa flóknar þarfir sem þeir sækja til skólans. Þarna er talað um að kennarar sækist ekki bara eftir öruggu starfi og launum heldur líka ýmsu öðru eins og t.d. þörf fyrir virðingu annarra.

Hafandi kennt nokkuð lengi og reynt ýmislegt þá hefur maður að sjálfsögðu prufað ýmislegt sem hefur ekki gengið mjög vel en svo hefur maður líka gert vel svo eftir hefur verið tekið. Þó svo að maður hafi oft sagt við sjálfan sig að eina sem maður þarf út úr vinnunni er nemendur sem eru þroskaðri í dag en í gær og laun sem duga fyrir reikningunum þá hafa orðin „vel gert“ frá yfirmönnum og samstarfsfélögum samt sem áður alltaf kitlað hégómataugina sem svo hefur örugglega gert það að verkum að maður hefur lagt sig enn meira fram í starfi eftir það. Kannski er maður ekkert mikið flóknari en hundurinn hans Pavlovs. Það þarf bara að vita á hvaða takka þarf að ýta til að fá mann til að gera eitthvað. 

Í kjölfarið á þessu var áhugavert að bera saman X, Y, og Z kenningarnar um sjónarhorn stjórnenda á starfsmenn sína við hugmyndirnar um stjórnunarstíl sem við ræddum í staðlotunni. Verkefnamiðuðu stjórnendurna og tengslamiðuðu stjórnendurna og þá sem falla þar einhversstaðar á milli. Myndin sem Kaplan og Owings draga upp af X og Y kenningarnar gæti maður einna helst lýst sem muninum á harðstjórn og lýðræði. Get ég ekki séð fyrir mér að mjög frjótt skólastarf geti átt sér stað undir stjórnanda sem sér starfsmenn sína út frá kenningu X. Gef mér þá frekar yfirmenn sem sjá starfsmenn sína frekar út frá kenningum Y eða Z og vinna eftir lýðræðislegum gildum. 

Það finnst mér svo passa vel við „Motivation-hygiene theory“ þar sem stjórnendur kappkosta að búa til faglegt umhverfi fyrir starfsmenn sína og treysta þeim til að vinna af heilindum og fagmennsku. Höfundar tala svo líka um að skólastjórar sem vinni svona reyni líka að eyða út hlutum sem ýti undir að kennarar séu ekki faglegir í sínum störfum. Dæmið sem höfundar teikna upp þarna á merkilega vel við skóla hér á landi þar sem þeir tiltaka stimpilklukku sem dæmi um úreltan hlut sem gefur til kynna að kennarar séu ekki faglegir og því eðlilegt að hætta að nota hana. Þannig sé hægt að fækka hlutum sem valda starfsóánægju. Þarna held ég að sjáist í sinni einföldustu mynd hvað traust skiptir miklu máli á vinnustað eins og skólar eru. Ef kennari upplifir það að yfirmaður treystir honum sem fagmanni þá held ég að það séu allar líkur á því að starfsmaðurinn geri allt sem í hans valdi standi til að standa undir því trausti.