
Í umræðum á námskeiðinu stjórnun og forysta þar sem við höfðum verið að skoða siðferðileg vandamál stjórnenda komu upp vangaveltur í hópnum um það þegar við erum að vinna með fólki sem er okkur náið. Við það tækifæri fór ég aðeins að velta fyrir mér hvernig er að vera stjórnandi þar sem eru mikil tengsl milli starfsmanna og þá milli stjórnenda og annarra starfsmanna. Þá fletti ég aðeins aftur í gegnum grein eftir Neil Cranston sem fjallar einmitt um siðferðileg vandamál stjórnenda. Við lesturinn á henni þá varð mér aftur hugsað til síðasta vetrar. Þá var staðan þannig í mínum skóla að skólastjóri var búin að lýsa því yfir að hann myndi hætta. Eins og gengur á svona vinnustað þar sem hafði lengi verið farsæll stjórnandi þá fara af stað vangaveltur um það hver tekur við og hvað muni breytast um leið.
Á meðan verið var að auglýsa eftir umsóknum þá vorum við nokkur sem vinnum í skólanum spurð að því hvort að við myndum ekki sækja um. Mitt svar var einfalt, nei. Þegar ég var spurður af hverju þá var svarið líka einfalt og þægilegt. Mig vantaði náttúrulega námið sem ég er að vinna í núna en ég lét svo líka fylgja með að ég myndi heldur ekki vilja setja mig í þær aðstæður að verða skólastjóri þar sem ég hefði unnið svona lengi. Þar sem maður hafði myndað alls konar vinasambönd og tengsl annars konar en yfirmaður – undirmaður. Alla vega myndi ég ekki gera það svona í fyrstu tilraun.
Þegar Cranston telur upp þau siðferðilegu vandamál sem skólastjórarnir í rannsókn hans tala um þá virðist maður hafa hitt naglann á höfuðið þar sem þetta er einmitt fyrsta siðferðilega vandamálið sem talið er upp hjá fyrsta stjóranum sem hann ræðir við. Starfsmaður stendur sig ekki og þá er spurning hvernig skuli taka á því. Gera ekkert, setja viðkomandi í starfsþjálfun eða losa sig við starfsmanninn. Cranston telur upp ýmislegt sem kemur inn í ákvörðunina og leggst á vogarskálarnar. Það er t.d. hagur einstaklingsins og hagur skólasamfélagsins, hvaða áhrif ákvörðun hefur á starfsmannahópinn eða á einstaklinginn eða skólann sem heild ef út í það er farið. Svo er spurning hvort skiptir meira máli tryggð stjórnandans við vin sinn starfsmanninn eða fagmennska hans sem stjórnanda (2006, 112-113).
Í litlu samfélagi eins og því sem við búum í þá eru nú allar líkur á að það sé erfitt að lenda ekki einhvern tíma í því að vinna með ættingja eða góðum vin. Ég held hins vegar að ég myndi frekar vilja velja það að koma nýr inn í stofnunina ef svo færi að maður yrði einhvern tíma skólastjóri heldur en að taka við þeim skóla sem ég hef unnið lengi í. Þetta er hins vegar ekki endilega hægt að velja því eins og kemur fram hjá Sögu Hilmu þá eru oft talsverðar tengingar milli fólks í litlum bæjarfélögum. Þegar staðan er þannig að upp geta komið svona siðferðileg vandamál þá held ég að það að stjórnendur hafi sterka sýn og gildi hvað varðar menntun og menntaforystu eins og talað er um í þriðja kafla Kaplan og Owens, skipti gríðarlegu máli. Enda kemur einnig fram í niðurstöðum Cranston að allir skólastjórarnir sem hann ræddi við hafi mikið talað um bæði persónuleg og fagleg gildi sín þegar kom að því að þurfa að taka stórar ákvarðanir og það hafi vissulega reynt á þau gildi þegar taka þurfti þessar ákvarðanir (2006, 116).
Heimild
Cranston, N., Ehrich, L. C., & Kimber, M. (2006). Ethical dilemmas: The “bread and butter” of educational leaders’ lives. Journal of Educational Administration, 44(2), 106–121. https://doi.org/10.1108/09578230610652015