Birt: 18. desember, 2022 Birt af: logi Athugasemdir: 0

Hér var verkefnið í umræðuhópnum sem ég var í að skoða kafla í bók eftir Michael Fullan sem heitir Indelible leadership. Við tókum fyrir fyrsta kaflann sem heitir Moral imperative and uplifting leadership. Í fyrra innleggi mínu í umræðunum

Það er einhvern vegin þannig að sumir höfundar sem skrifa um menntamál vekja hjá manni sterkari tilfinningar en aðrir og það á heldur betur við þennan kafla hans Michael Fullan. Eldmóður og ástríða voru mér ofarlega í huga þegar ég las kaflann og upp hjá manni komu spurningar eins og af hverju maður ákvað að verða kennari á sínum tíma og svo hvað hefur haldið manni í þessu starfi síðan þá?
Í kaflanum talar Fullan um að sem manneskjur þá drögumst við flest að því að taka þátt í hlutum sem hafa merkingu, bæði persónulega og samfélagslega. Það held ég að sé einmitt málið hvað varðar kennarastarfið og held að það eigi ekkert síður við hvað varðar stjórnunarstörf í skólum. Í kaflanum veltir Fullan því upp hvað fái fólk til að leggja orku sína í að láta eitthvað gerast og heldur hann því fram að þegar fólk vinni fyrir stofnanir sem standi fyrir eitthvað sérstakt og verðmætt þá muni fólkið yfirleitt öðlast sameiginlega sjálfsmynd og leggja sig fram við það sem það gerir. Fólkið leggi sig fram um að vinna að sameiginlegu markmiði sem svo aftur veitir einstaklingunum ákveðna lífsfyllingu.
Þegar hvert og eitt okkar sem vinnum við menntun skoðum það af hverju við störfum í þessum geira þá held ég að mörg okkar svari því að við brennum fyrir nemendur okkar og námi þeirra. Hvað varðar stjórnendur þá held ég að það sé einmitt eins Rannveig segir, hlutverk stjórnenda er að skapa þessar kjöraðstæður fyrir kennara sem finna fjölina sína og þannig geti þeir öðlast eldmóðinn og ástríðuna sem þeir þurfa til að vinna að því sem stofnunin vinnur að í sameiningu.
Í greininni talar Fullan um svokallað „deep work“ sem mér finnst hljóma eins og nokkurs konar djúpflæði. Þar talar hann um að til að geta náð þannig vinnu með hópnum þurfi að minnka áreiti þar sem djúpu vinnuna sé bara hægt að ná í aðstæðum þar sem ekki sé utanaðkomandi truflun. Þegar við skoðum starf kennara í dag þá er það að verða sífellt stærra vandamál hversu mikið áreiti er á kennurum í dag sem veldur því að starf skóla nær ekki þeirri dýpt sem þarf til að starfsfólk skóla geti náð saman og stefnt í sömu átt. Það verður, eins og Fullan talar um í greininni, yfirborðskennt.
Þarna held ég að stjórnendur geti komið sterkt inn með því að finna leiðir til að minnka áreitið og truflunina þannig að rými skapist í stofnuninni fyrir þessa djúpu vinnu sem þarf að fara fram til að þróun og breytingar geti átt sér stað. Spurningin er hins vegar hvernig geta stjórnendur gert þetta? Skapað rými fyrir starfsmenn sína ásamt því að passa upp á sitt rými fyrir djúpa vinnu, vera djúpur leiðtogi.