Birt: 8. febrúar, 2023 Birt af: logi Athugasemdir: 0

Á hverjum degi eru kennarar og skólar að þróa starf sitt með það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á nám nemenda sinna. Þróun þessi er misjöfn að umfangi eins og gefur að skilja þar sem oft er farið í skrefum á meðan annars eru tekin stór stökk. Til marks um þá grósku sem finna má í skólum landsins hvað þetta varðar ætti að nægja sem dæmi að benda á allan þann fjölda þróunarverkefna sem hlotið hafa styrk á vegum Sprotasjóðs. Flest eiga þróunarverkefnin og umbæturnar það sameiginlegt að spretta upp úr grasrótarstarfi skólanna en öðru hvoru kemur fyrirskipun að ofan um að breytinga sé þörf. Þannig má benda á spjaldtölvuinnleiðingu Kópavogsbæjar, ekki svo nýja Aðalnámskrá grunnskóla og þjóðarsáttmáli um læsi sem dæmi um umbætur sem hafa komið að ofan og skólum var ætlað að innleiða. 

Ef orðræða um kosti og galla fyrirskipaðra umbóta er sett til hliðar og gengið út frá að markmið þeirra sé eins og grasrótarstarfið að auka gæði náms og árangur nemenda þá má velta fyrir sér hvernig best sé að stuðla að árangri þessara umbóta. 

Í upphafi skyldi endinn skoða

Fyrir stuttu kom út greinin Preparing Schools for Educational Change: Barriers and Supports – A Systematic Literature Review eftir Jill M. Aldridge og Felicity I. McLure. Í greininni byggja þær á yfirlitsrannsókn sinni þar sem skoðað var hvernig skólastjórnendur geti best stuðlað að árangri umbóta sem koma með þessum hætti inn í skólana. 

Í rannsókn sinni greina Aldridge og McLure (2023) fjögur þemu atriða sem stjórnendur geti haft áhrif á og hafi talsvert um það að segja hvort innleiðing fyrirskipaðra umbóta sé árangursrík. Þannig sé mögulegt að hafa áhrif á skólaanda (e. school climate), skipulag breytinga, undirbúning breytinga og uppbyggingu getu (e. capacity building). 

Hvað varðar skólaanda þá benda Aldridge og McLure á að ef skortur er á trausti og sameiginleg sýn kennara og stjórnenda er ekki til staðar muni reynast erfitt að innleiða hvaða umbætur sem er. Við skipulagningu breytinga er komið inn á nauðsyn þess að draga sem flesta að því ferli enda mótist með því sameiginleg sýn. Við undirbúning innleiðingar er mikilvægi þess að mögulega þurfi að aðlaga starf skóla að breytingunum og að markmið breytinganna séu öllum ljós. Að lokum er komið inn á hversu mikilvægt það sé að byggja upp skilning allra sem að umbótunum koma og ásamt því að byggja upp getu kennara til að vera fyrirmynd annarra um breytingarnar. 

Íslenska samhengið

Þessi síðasti þáttur er að líkindum sá áhugaverðasti þegar grein þeirra Aldridge og McLure er borin upp að þeim innleiðingum umbóta sem settar hafa verið af stað hér á landi. Í grein sinni tala þær sérstaklega um eina mögulega aðferð sem skólastjórnendur geti beitt til að byggja upp getu í sínum skóla og leggja til að áður en heildar innleiðing eigi sér stað þá sé fyrst byrjað á lítilli tilraunainnleiðingu (e. small-scale pilot). Með því móti megi efla áhugasama frumkvöðla í kennarahópnum sem leiðtoga og nýta sem fyrirmyndir þegar heildin svo fylgir á eftir. 

Alveg eins og Aldridge og McLure leggja til að skólastjórnendur vandi til verka, undirbúi af kostgæfni og geri smærri tilraun á innleiðingu til að efla getu kennara sinna þá má spyrja sig hvort að sveitarfélög og menntayfirvöld geti ekki gert slíkt hið sama. Hvaða áhrif hefði það sem dæmi haft á spjaldtölvuinnleiðingu Kópavogsbæjar ef einn skóli hefði farið á undan með stuðningi kennsluráðgjafa til að mynda þekkingu sem hægt hefði verið að miðla til annarra? Hefði traustið orðið meira og sýnin og markmiðin skýrari? Hefði árangurinn orðið meiri? Hefði það ef til vill reddast?

Heimild

Aldridge, J. M. og McLure, F. I. (2023). Preparing Schools for Educational Change: Barriers and supports – A systematic literature review. Leadership and Policy in Schools, 1–26. https://doi.org/10.1080/15700763.2023.2171439