Birt: 10. mars, 2023 Birt af: logi Athugasemdir: 0

Við það að lesa þriðja kaflann í bók þeirra Hoy og Miskel þar sem þeir fjalla m.a. um kenningar Weber um skrifræði þá velti ég fyrir mér hvar gæti ég séð þessar hugmyndir um skýra valdaröðun, nákvæma verkaskiptingu og virðingu sem byggir á valdboði og refsingu. Það fyrsta sem kom upp í hugann og gæti fallið undir svona ýktar hugmyndir á þessari línu var her. Stundum rekst maður á fólk sem talar um menntamál og skóla með þeim hætti að halda mætti að í þeirra huga séu skólar byggðir upp með sama hætti og her. Þetta og hitt sé bannað og þá eigi bara að refsa með hinum og þessum hætti. Reglur og refsingar eigi að leysa öll vandamál. Banna símana og refsa þeim sem leggja í einelti og ef Siggi litli í 3. bekk nær ekki lestrarviðmiðum þá ætti bara að lækka laun kennarans.
Þegar ég hef tekið spjallið við fólk sem talar með þessum hætti þá hefur yfirleitt alltaf komið í ljós að gleymst hefur að gera ráð fyrir mannlega þættinum. Sem er einmitt það sem talað er um í kaflanum að hafi verið mest gagnrýnt við skrifræði Weber. Skólar eru nefnilega og eiga að mínu viti að vera persónulegar stofnanir.
Í kaflanum er skrifræði Weber lýst sem ópersónulegu kerfi þar sem ákvarðanir eru teknar út frá sérfræðiþekkingu og miðað við hvernig ég les í þessar hugmyndir um skrifræði þá virðist mér að þeir sem hafi mesta sérfræðiþekkingu sitji efst í valdastiganum þegar skólastarfi er háttað svona. Ég velti fyrir mér hins vegar hvort að hægt sé að setja þessar hugmyndir í samhengi við hugmyndir sem komu fram á námskeiðinu stjórnun og forysta sem ég tók fyrir áramót ásamt fleirum. Þar var komið inn á hugmyndir um leiðtoga og hegðun þeirra í bók Kaplan og Owings (2015, bls. 43-47) í tengslum við hversu vel skóli stæði varðandi fagmensku kennara. Þar var komið inn á það að eftir því sem hæfni kennara er minni og skuldbinding hans við starfið er minna þeim mun meira þurfi að stýra honum. Eftir því sem fagmennska kennara er meiri þeim mun minni þurfi stýringin að vera.
Ég velti því fyrir mér hvort að hugmyndir stjórnenda sem mig langar til að kalla valdapíramídastjórnendur (top-down) um þörf fyrir aukið skrifræði byggi mögulega á tveim mismunandi orsökum. Önnur ástæðan sé að þeir viti að skortur sé á fagmennsku meðal kennara og annarra starfsmanna og því sé þörf fyrir aukið skrifræði í anda Weber. Hin ástæðan sé að þeir treysti ekki eða hafi ekki trú á fagmennsku kennara og því leyti þeir í öryggi og fyrirsjáanleika Weber-ísks skrifræðis. Í mínum huga þá er fyrra ástandið alltaf betra þar sem að þegar búið er að byggja upp fagmennsku er alltaf hægt að slaka á skrifræðinu. Í því seinna ríkir ekki traust sem ég held að sé alls ekki góð uppskrift að skólastarfi.

Heimildir

Hoy, W. K. og Miskel, C. G. (2012). Educational administration: Theory, research, and practice. McGraw-Hill Education.
Kaplan, L. S. og Owings, W. A. (2015). Introduction to the principalship: Theory to practice. Routledge.