Birt: 13. september, 2022 Birt af: logi Athugasemdir: 0

Ég las greinina A closer look at the role of mentor teachers in shaping preservice teachers’ professional identity eftir Mahsa Izadinia en í henni er fjallað um rannsókn sem hún gerði á þeim áhrifum sem móttökukennarar geta haft á faglega sjálfsmynd kennaranema á vettvangi. Í inngangi greinarinnar vísar hún í heimildir sem bendi til þess að jákvæð reynsla kennaranema ýti undir að sömu nemar haldist í kennslu að loknu námi og að þar sem stór hluti nýrra kennara hætti á fyrstu fimm árum sínum í kennslu sé mikilvægt að horfa til þessa þáttar.
Rannsóknin var unnin með því að taka viðtöl við sjö kennaranema sem stunduðu nám við háskóla í vestur Ástralíu ásamt því að nemarnir héldu flestir dagbók sem þau voru reyndar mis dugleg við að halda. Vettvangsnámið fór þannig fram að hver nemi fór á vettvang í tvö skipti og fékk nýjan móttökukennara í hvort skipti. Viðtölin voru tekin við kennaranemana þrisvar. Áður en þeir fóru á vettvang og svo í lok hvors æfingatímabils. Við yfirferð gagna horfði rannsakandinn sérstaklega til tilfinninga sem nemarnir tengdu við móttökukennara sína.
Niðurstaða höfundar eftir rannsóknina var að þó móttökukennararnir hefðu ekki haft veruleg áhrif á faglega sjálfsmynd nemanna þá hefðu þeir, eftir tilfellum, haft jákvæð eða neikvæð áhrif á þá. Nemar sem höfðu upplifað bæði vettvangstímabil sín með jákvæðum hætti voru sjálfsöruggari við upphaf kennsluferils síns en þeir sem höfðu neikvæða upplifun af öðru eða báðum vettvangstímabilum.
Þessi niðurstaða höfundar passar vel við mína eigin upplifun af vettvangsnámi og má eiginlega segja að passi fullkomlega við. Sem dæmi þá man ég eftir móttökukennara sem ég var hjá á fyrsta ári í Kennaraháskólanum sem var mjög fagleg, gaf uppbyggilega endurgjöf og gaf manni tækifæri til að prufa sig áfram. Eftir þá reynslu var maður fullur sjálfstrausts og viss um að eiga eftir að ganga vel í starfi sem kennari þegar fram í sækti. Líklega svipuð upplifun og höfundur vísar í hjá einum viðmælanda sínum í rannsókninni þar sem viðmælandin hefur ákveðið að ef hún taki að sér að leiðbeina kennaranemum í framtíðinni þá muni hún móta leiðbeiningar sínar eftir sínum móttökukennara. Á hinn bóginn þá kemur höfundur einnig inn á nema sem hafði neikvæða reynslu af móttökukennara. Gat ekki litið á hana sem fyrirmynd fyrir sig. Þegar málum er þannig fyrir komið er erfitt að sjá að móttökukennari geti haft mikil og góð áhrif. Nema þá að neminn átti sig á því að svona vilji hann ekki starfa í framtíðinni.
Í niðurstöðukaflanum sínum bendir Izadinia á að hlutverk móttökukennara ætti að vera að hjálpa kennaranemum að uppgötva sjálfsmynd sína sem kennara og kennslustíl. Aðallega með því að hvetja þá til að gera tilraunir og ígrunda vel eigin reynslu. Þessu verð ég að vera sammála höfundi bæði út frá eigin reynslu sem kennaranemi á sínum tíma og út frá þeim skiptum sem ég hef tekið að mér að leiðbeina kennaranemum sjálfur. Markmiðið ætti alltaf að vera að byggja upp kennaranemann þannig að viðkomandi geti nýtt reynsluna til að verða betri kennari.
Við lestur greinarinnar vaknaði svo hugmynd sem vel getur þó verið að hafi verið framkvæmd að einhverju eða öllu leiti. Það væri athyglisvert að setja upp rannsókn hér á Íslandi með svipuðu sniði en horfa þá til þess hvort að menntun móttökukennara geti haft áhrif á reynslu kennaranema á vettvangi. Hugmyndin væri þá að mynda tvo hópa kennaranema þar sem annar hópurinn fengi móttökukennara af handahófi en hinn hópurinn fengi móttökukennara sem hefur lokið námi í starfstengdri leiðsögn eða einhverju sambærilegu. Gaman væri að komast að því hvort að munur væri á upplifun vettvangsnema og hvort það væri hægt að merkja mikin mun á sjálfsmynd þeirra sem kennara og sjálfsöryggi í starfi.

Heimildir

Izadinia, M. (2015). A closer look at the role of mentor teachers in shaping preservice teachers’ professional identity. Teaching and Teacher Education, 52, 1–10. https://doi.org/10.1016/j.tate.2015.08.003